Almennar reglur um umgengni í kirkjugörðum og sem gilda um Kirkjugarða Akureyrar
Kirkjugarðar eru friðhelgir samkvæmt lögum og því sérhver hávaði og ys bannaður. Öllum er frjáls aðgangur að kirkjugörðum með þeim takmörkunum sem af þessu leiðir.
Kirkjugarðar Akureyrar eru opnir allan sólarhringinn. Athugið að öll umferð vélknúinna ökutækja er bönnuð nema með sérstöku leyfi hverju sinni. Hraði ökutækja skal aldrei fara fram úr 20 km/klst í görðunum.
Öll umferð hunda er bönnuð í görðunum samkvæmt samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað
Mælst er til þess að haft sé samband við forráðamenn garðanna áður en farið er í framkvæmdir við leiði og/eða minningarmörk. Viðverutími starfsmanna er milli kl. 08:00 og 17:00 alla virka daga.
Vinsamlegast skiljið ekki eftir á leiðum eða götum garðanna mold, jurtaleifar eða nokkuð sem veldur óprýði eð truflun. Ílát fyrir slíkt eru við alla inngöngu og víða um garðinn.
Samkvæmt lögum um kirkjugarða er bannað að gróðursetja tré á leiði. Í raun er best að hafa samráð við starfsmenn garðanna um alla gróðursetningu fjölæringa og runnaplantna.
Gróður á leiðum er á ábyrgð aðstandenda, en þó hafa starfsmenn garðanna forsjá og geta snyrt og/eða fjarlægt gróður valdi hann óþægindum eða hættu. Reynt er að gera slíkt í samráði við aðstandendur eins og framast er unnt.