Þegar andlát ber að höndum
Þegar þú ert sorgmæddur,
skoðaðu þá aftur hug þinn,
og þú munt sjá, að þú grætur
vegna þess, sem var gleði þín.


Úr Spámanninum

Þegar andlát ber að, þarf að ýmsu að hyggja. 

Eftir andlát er hinn látni fluttur í líkhúsið í Höfðakapellu.  Aðstandendur hafi samband í síma 461 4060 og panti tíma til viðtals. Starfsfólk Útfararþjónustu Kirkjugarða Akureyrar mun eftir bestu getu liðsinna ykkur.

Fyrst þarf að koma á sambandi við prest.
Aðstandendur hafa sjálfir val um til hvaða prests skuli leitað. Þá þarf að liggja fyrir nafn hins látna, kennitala, staða, lögheimili, dánarstaður, dánardagur, nafn nánasta aðstandanda og lögheimili hans.

Tilkynna þarf andlátið til nánustu ættingja og vina og jafnvel auglýsa það í blöðum eða útvarpi.

Kistulagning fer venjulega fram í Höfðakapellu 2-10 dögum eftir andlátið.
Kistulagningar geta farið fram alla virka daga frá kl. 9-15. Ákveða þarf í samráði við prest og Útfararþjónustu hvenær athöfn fer fram. Starfsfólk Útfararþjónustunnar aðstoðar aðstandendur við val á kistum og útvegar þær. Umbúnaður hins látna í kistu er gerður í fullu samráði við aðstandendur.

Dánarvottorð er gefið út af lækni.
Venslamaður hins látna fær dánarvottorðið og skilar því til sýslumanns, sem gefur út skriflega staðfestingu. Aðstandendur afhenda prestinum staðfestinguna.

Útförin getur farið fram frá hvaða kirkju sem er á Akureyri og nágrannasveitum.
Aðstandendur og prestur ákveða staðinn og stundina í samráði við Útfararþjónustu.

Burðarmenn.
Ákveða þarf hve margir og hverjir bera kistuna. Algengast er að 6 eða 8 manns beri kistuna.

Blómaskreytingar.
Aðstandendur geta séð myndir af kistuskreytingum og krönsum frá blómabúðum á Akureyri hjá Útfararþjónustunni. Hægt er að útvega blóm og skreytingar eftir óskum aðstandenda. Benda skal á, að einnig má sveipa kistuna íslenska fánanum, eða sleppa hvoru tveggja.

Tónlist og söngur.
Hægt er að fá upplýsingar hjá Útfararþjónustunni um þá sem gefa kost á sér til tónlistarflutnings við útfarir.

Legstaður.
Ef hinn látni á ekki frátekinn legstað, er hægt að velja legstað, hvort heldur er í kirkjugarðinum við Þórunnarstræti, í Lögmannshlíð eða einhverjum öðrum kirkjugarði. Hægt er að taka frá allt að tvö legstæði við hlið þess sem grafinn er.

Í kyrrþey.
Hægt er að óska eftir því að útför fari fram í kyrrþey og þá ósk ber að virða.

Minningarathöfn.
Í sumum tilvikum er haldin minningarathöfn á öðrum stað en útförin fer fram, t.d þegar hinn látni er jarðsunginn fjarri heimaslóðum. Einnig eru minningarathafnir haldnar, þegar menn farast af slysförum og lík þeirra finnast ekki.

Bálför.
Aðstandendur velja á milli jarðarfarar eða bálfarar, ef ekki liggur fyrir ósk hins látna. Bálför er eins og hefðbundin útför nema að kistan er ekki borin til grafar. Bálstofa er staðsett í Reykjavík og því þarf að huga að flutningi hins látna. Eftir bálför er askan varðveitt í duftkeri. Duftker ber að geyma í líkhúsi og jarða í kirkjugarði. Hjá embætti sýslumanns er hægt að sækja um leyfi til að dreifa ösku látinna einstaklinga.

Aðrar leiðir.
Hægt er að velja borgaralega útför án þjónustu prests. Fólk úr öðrum trúfélögum eða utan trúfélaga á rétt á legstað í kirkjugörðum og þjónusta Útfararþjónustunnar stendur þeim að sjálfsögðu einnig til boða.

Auglýsingar.
Hægt er að tilkynna andlát og útför með auglýsingum í blöðum eða útvarpi. 

Erfidrykkja.
Margir bjóða kirkjugestum til erfidrykkju eftir útförina. Oftast eru erfidrykkjur haldnar í safnaðarheimili viðkomandi kirkju, á heimili aðstandenda eða sal úti í bæ.

Útfararstyrkir.
Mörg stéttarfélög taka þátt í útfararkostnaði félagsmanna sinna. Aðstandendur þurfa að kanna rétt sinn vandlega um leið og útför er skipulögð.

Kostnaður.
Aðstandendur geta ráðið að nokkru leyti formi útfarar og mjög misjafnt hvaða leið er valin. Oft liggja fyrir óskir hins látna um athöfnina. Útfararþjónusta Kirkjugarða Akureyrar hefur verðlista yfir þá þjónustu, sem í boði er, og getur gert áætlun um hvað útför muni kosta, samkvæmt óskum aðstandenda.

Krossar.
Algengt er, að krossar séu settir á ný leiði, merktir með nafni hins látna, fæðingar- og dánardegi. Upplýsingar um krossa, sem í boði eru, fást á skrifstofu Útfararþjónustunnar.

Legsteinar.
Það færist í vöxt, að aðstandendur setji legstein á leiði hins látna. Útfararþjónustan getur verið aðstandendum innan handar varðandi hvar hægt er að panta legsteina og Kirkjugarðar Akureyrar geta séð um uppsetningu þeirra ef óskað er. Rétt er að kynna sér reglugerð um minningarmörk og uppsetningu þeirra.

Umhirða.
Aðstandendur geta gróðursett sumarblóm á leiði hins látna. Ekki má planta trjám eða hávöxnum runnum á leiði. Allar upplýsingar má fá hjá starfsfólki Útfararþjónustu og starfsfólki Kirkjugarða Akureyrar.